Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 504 . mál.


847. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um öll hlutafélög, nema annað sé ákveðið í lögum. Viðskiptaráðherra fer með mál er varða hlutafélög samkvæmt lögum þessum, önnur en þau sem varða skráningu hlutafélaga en með þau fer ráðherra Hagstofu Íslands. Með ráðherra er í lögum þessum átt við viðskiptaráðherra nema ráðherra Hagstofu Íslands sé tilgreindur sérstaklega.

2. gr.

    Í stað orðsins „hlutafélagaskrá“ í 3. málsl. 18. gr. laganna kemur: ráðherra.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
    3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Rísi ágreiningur milli félags og kröfuhafa um það hvort framboðin trygging sé nægileg geta hlutaðeigandi, innan tveggja vikna frá því að tryggingin er boðin fram, lagt málið fyrir héraðsdóm á heimilisvarnarþingi félagsins.
    Í stað orðsins „hlutafélagaskrá“ í 2. mgr. kemur: ráðherra.

4. gr.

    Í stað orðanna „hlutafélagaskrá“ og „hlutafélagaskrár“, þar sem þau koma fyrir í 2. mgr. 87. gr. laganna, kemur: ráðherra.

5. gr.

    Í stað orðsins „hlutafélagaskrár“ í 3. mgr. 90. gr. laganna kemur: ráðherra.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
    Í stað orðanna „hlutafélagaskrá“ og „hún“, þar sem þau koma fyrir í 1. mgr., kemur: ráðherra, og: hann.
    Í stað orðsins „hlutafélagaskrá“ í 3. mgr. kemur: ráðherra.

7. gr.

    Í stað orðsins „hlutafélagaskrár“ í upphafi 1. mgr. 107. gr. laganna kemur: ráðherra.

8. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 141. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    1. og 2. mgr. 147. gr. laganna orðast svo:
    Hagstofa Íslands skráir íslensk hlutafélög og útibú erlendra hlutafélaga og starfrækir hlutafélagaskrá í því skyni.
    Ráðherra Hagstofu Íslands er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag hlutafélagaskráningar, rekstur hlutafélagaskrár og aðgang að skránni. Má þar m.a. kveða á um gjaldtöku vegna útgáfu vottorða og afnota af tölvuskrá hlutafélaga. Slík gjaldtaka skal miðast við að fá hluta af rekstrarkostnaði hlutafélagaskrár upp borinn.

10. gr.

    158. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 147. gr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um einkahlutafélög og lögum um samvinnufélög. Eru frumvörpin flutt í tengslum við fyrirhugaða endurskipulagningu og endurbætur á tilhögun opinberrar skráningar félaga og fyrirtækja. Breytingarnar miða að því að Hagstofa Íslands hafi umsjón með allri skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga og annarra aðila í atvinnurekstri en að málefni félaga almennt verði eftir sem áður í höndum viðskiptaráðuneytis.
    Viðskiptaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa á þessum grundvelli komið sér saman um tillögur frumvarps þessa til breytinga á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995. Í frumvarpinu er lagt til að Hagstofa Íslands annist skráningu hlutafélaga og reki hlutafélagaskrá sem nú heyrir undir viðskiptaráðherra. Samkvæmt þessu fari ráðherra Hagstofu Íslands með mál er varða hlutafélagaskráningu en viðskiptaráðherra fari eftir sem áður með málefni hlutafélaga almennt. Flest ákvæði frumvarpsins lúta að þessari breytingu. Nokkur verkefni, sem í núgildandi lögum eru falin hlutafélagaskrá, færast þó ekki til Hagstofunnar samkvæmt frumvarpinu. Þar má nefna boðun til hluthafafundar í sérstökum tilvikum, tilnefningu rannsóknarmanna og kröfu um búskipti við ákveðnar aðstæður sem lagt er til að viðskiptaráðherra hafi með höndum. Þá er lagt til að heimilað verði að afla tekna til rekstrar hlutafélagaskrár með gjaldtöku vegna útgáfu vottorða og afnota af tölvuskrá hlutafélaga.
    Að beiðni samstarfshóps hagstofustjóra og ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis gerði Hagsýsla ríkisins athugun á fyrirkomulagi opinberrar skráningar félaga og fyrirtækja á árunum 1995–96. Í skýrslu Hagsýslunnar um þetta efni frá júlí 1996 kemur fram að opinber skráning félaga, fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri sé í höndum ýmissa aðila sem falli undir fyrrnefnd fjögur ráðuneyti. Hlutafélagaskrá skráir hlutafélög og einkahlutafélög og starfslið skrárinnar skráir og samvinnufélög, Hagstofa Íslands heldur fyrirtækjaskrá og sýslumannsembætti halda firma- og verslanaskrár, hvert í sínu umdæmi. Í lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, er svo kveðið á að félagaskrá innheimti ársskýrslur og ársreikninga fyrirtækja yfir tilteknum stærðarmörkum, veiti almenningi aðgang að þeim og geri úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslum stjórna. Ákveðið hefur verið að embætti ríkisskattstjóra sinni þessu verkefni til ársloka 1997, sbr. reglugerð nr. 134/1996.
    Helstu gallar núverandi fyrirkomulags eru eftirfarandi samkvæmt skýrslu Hagsýslu ríkisins:
     Margskráning upplýsinga. Sömu upplýsingar eru skráðar í fleiri en eina skrá. Þetta er óhagkvæmt og getur valdið misræmi í skráningu.
     Óáreiðanleg skráning. Upplýsingar um breytingar á stöðu fyrirtækja berast seint og í mörgum tilvikum aldrei milli skráningaraðila. Vegna þessa þurfa umræddar stofnanir að treysta á auglýsingar í Lögbirtingablaði um stofnun fyrirtækja, breytingar, innkallanir o.s.frv. sem veldur óöryggi fyrir notendur upplýsinga úr skránum.
     Óhagræði fyrir viðskiptavini. Aðilar, sem hyggjast hefja atvinnurekstur, þurfa nú að tilkynna það og láta skrá sig hjá a.m.k. tveimur ef ekki þremur opinberum stofnunum. Almenningur á og einnig erfitt með að nálgast upplýsingar úr opinberum skrám.
     Margar skrár og ósamtengdar. Auk hlutafélagaskrár, samvinnufélagaskrár og fyrirtækjaskrár Hagstofunnar heldur hver sýslumaður firma- og verslanaskrár fyrir umdæmi sitt. Hinar fyrrnefndu eru tölvuvæddar en ekki á samræmdu formi eða samtengdar. Firmaskrárnar eru fæstar tölvuvæddar og hvorki samræmdar né samtengdar. Þetta býður heim hættu á skráningu sama firmaheitis í fleiri en einu umdæmi eins og mörg dæmi eru um.
    Auk þeirra vandamála, sem hér hafa verið rakin, er ljóst að kröfur til fyrirtækjaskráningar hafa aukist til muna, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga. Hér er ekki síst um að ræða kröfur um tölfræðilega skráningu og úrvinnslu, kröfur um eftirlit og kröfur um upplýsingamiðlun, sbr. fyrrnefnd ákvæði laga um ársreikninga.
    Í framhaldi af skýrslu Hagsýslu ríkisins samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum 2. ágúst 1996 sameiginlega tillögu ráðherra Hagstofu Íslands, dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra um breytingar á tilhögun skráningar fyrirtækja og félaga. Í samþykkt þessari er gert ráð fyrir eftirtöldum ráðstöfunum:
—    Haldin sé ein grunnskrá yfir fyrirtæki og félög. Hagstofa Íslands haldi þessa skrá í umboði viðkomandi stjórnvalda.
—    Stofnunin Skráning hlutafélaga (hlutafélagaskrá) verði lögð niður 1. janúar 1997 og stærstur hluti verkefna hennar flytjist til Hagstofunnar en önnur til viðskiptaráðuneytis.
—    Sýslumannsembætti hætti að halda sjálfstæðar firmaskrár.
—    Sýslumannsembætti, skattstofur og Hagstofa Íslands taki á móti skráningartilkynningum í hina nýju skrá.
—    Hagstofustjóri og ráðuneytisstjórar dómsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis myndi stýrihóp sem komi framangreindum breytingum til framkvæmda fyrir árslok 1998 í samráði við viðkomandi ráðherra.
    Markmið með nýrri tilhögun á skráningu fyrirtækja og félaga eru einkum betri þjónusta við notendur, áreiðanlegri skráning, samræmt eftirlit, betri upplýsingamiðlun, fjárhagslegur sparnaður og aukið viðskiptaöryggi. Þetta nýja fyrirkomulag fellur vel að stefnu ríkisstjórnarinnar um nýskipan í ríkisrekstri þar sem segir m.a. að draga beri úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld, sníða beri þjónustu ríkisins að nútímatækni og með stöðlum og samhæfingu þurfi að tryggja áreiðanleika og samræmi í upplýsingakerfum hins opinbera.
    Endurskipulagning á skráningu fyrirtækja og félaga mun hafa í för með sér margvíslegan sparnað, einkum vegna fækkunar skráa og skráningaraðila og samhæfingar kerfa sem leiðir til verulegs vinnusparnaðar þeirra opinberu stofnana sem hér um ræðir. Ekki síst mun þó nýtt skipulag þessara mála leiða til mikils sparnaðar og hagræðis fyrir viðskiptavini þessara stofnana sem þurfa aðeins að leita á einn stað, eftir að hið nýja skráningarkerfi verður orðið virkt, í stað margra áður.
    Í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar var unnið að frekari athugun þessa máls og undirbúningi þess. Niðurstöður urðu m.a. þær að ekki var talið gerlegt að fela Hagstofu Íslands að annast rekstur hlutafélagaskrár án þess að kveðið yrði skýrt á um það í lögum eins og frumvarp þetta ber með sér. Hvað varðar einstök framkvæmdaratriði er áformað að verði frumvarp þetta að lögum muni hlutafélagaskrá og fyrirtækjaskrá verða sameinaðar í húsinu Dagsbrún við Lindargötu 9. Jafnframt verði starfsfólki hlutafélagaskrár boðin áframhaldandi störf við hlutafélaga- og fyrirtækjaskrárnar. Með flutningi skránna í sameiginlegt húsnæði, sameiginlegum búnaði og samræmingu vinnuferla næst strax töluvert hagræði fyrir viðskiptavini. Hvað snertir skrárnar sjálfar þarf að endurnýja tölvubúnað hlutafélagaskrár og samhæfa skráningar- og upplýsingakerfi hlutafélagaskrár og fyrirtækjaskrár til bráðabirgða. Samhliða þarf að hefjast handa við að vinna að varanlegri lausn, þ.e. að smíða nýtt tölvukerfi vegna heildstæðrar skráningar fyrirtækja og félaga í einn gagnagrunn. Þetta er grundvallarforsenda flutnings á skráningu hlutafélaga til Hagstofunnar þar sem ekki næst veruleg hagræðing af sameiningu skránna fyrr en unnt verður að reka þær í einu samræmdu tölvukerfi. Af hálfu Hagstofunnar er stefnt að því að þetta verk verði unnið í tengslum við endurnýjun á tölvukerfi þjóðskrár og fyrirtækjaskrár þar sem sýnt er að ná megi verulegum sparnaði með því að vinna þessi verk í einu verkefni.
    Verði frumvarp þetta að lögum nær fyrri áfangi samþykktar ríkisstjórnarinnar, sem áður var til vitnað, fram að ganga. Í framhaldi af því yrði síðan unnið að undirbúningi síðari áfanga þess að koma á einu skráningarkerfi fyrir fyrirtæki og félög, þ.e. að leggja niður firmaskrár einstakra stjórnsýsluumdæma sýslumanna og fella firmaskráningu að samræmdri og heildstæðri skráningu fyrirtækja og félaga.
    Að lokum má nefna að verði frumvarp þetta að lögum þarf að breyta ákvæðum um verkaskiptingu milli viðkomandi ráðuneyta í reglugerð um Stjórnarráð Íslands til samræmis við breytta skipan þessara mála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um valdsvið ráðherra. Lagt er til að viðskiptaráðherra fari með mál er varða hlutafélög, önnur en þau sem varða skráningu þeirra en með þau fari ráðherra Hagstofu Íslands. Skráning hlutafélaga verður samkvæmt þessu á forræði Hagstofunnar. Viðskiptaráðuneytið fer hins vegar almennt með málefni hlutafélaga, m.a. með hliðsjón af skyldum Íslendinga samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í samræmi við þetta er með ráðherra samkvæmt frumvarpinu átt við viðskiptaráðherra nema ráðherra Hagstofu Íslands sé tilnefndur sérstaklega eins og gert er í 1. og 147. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra krefjist þess fyrir héraðsdómi að hlutafélagi verði slitið vegna vanskila á greiðslu hlutafjár. Þetta er í samræmi við aðra breytingartillögu í 7. gr. frumvarpsins varðandi kröfu um búskipti en sú tillaga snertir 107. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Í a-lið er gert ráð fyrir því sem skilyrði fyrir hlutafjárlækkun að ágreiningur um það hvort framboðin trygging fyrir greiðslu gjaldfallinna eða umdeildra krafna sé nægileg heyri undir héraðsdóm en ekki hlutafélagaskrá eins og nú er. Er hér tekið mið af samsvarandi ákvæði í 4. mgr. 126. gr. laganna um tryggingu í tengslum við samruna hlutafélaga.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að ráðherra, en ekki hlutafélagaskrá, veiti undanþágu frá innköllunarskyldu í tengslum við hlutafjárlækkun.

Um 4. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra, en ekki hlutafélagaskrá, láti boða til hluthafafunda í hlutafélögum, m.a. í þeim tilvikum þegar félagsstjórn lætur hjá líða að boða til slíkra funda sem halda skal samkvæmt lögum, félagssamþykktum eða ákvörðun hluthafafunda, sbr. 2. mgr. 87. gr. laganna.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að umboðsmaður ráðherra, ekki hlutafélagaskrár, ákveði fundarstjóra í þeim tilvikum sem vikið var að í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að ráðherra, ekki hlutafélagaskrá, tilnefni rannsóknarmenn í ákveðnum tilvikum.

Um 7. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að ráðherra, en ekki hlutafélagaskrá, standi að beiðni um að bú hlutafélags verði tekið til skipta í ákveðnum tilvikum.

Um 8. gr.


    Ekki þykir þörf á að kveða á um það í 1. mgr. 141. gr. laganna að settar séu reglur um tilkynningar varðandi stofnun útibúa erlendra hlutafélaga hér á landi enda segir í þeirri málsgrein að ákvæði XVII. kafla laganna um skráningu hlutafélaga skuli gilda eftir því sem við á.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er lagt til að ákvæðum 1. mgr. 147. gr. laganna verði breytt á þá leið að kveðið verði á um að Hagstofa Íslands skrái íslensk hlutafélög og útibú erlendra hlutafélaga og starfræki hlutafélagaskrá í því skyni eins og nánar er um rætt í almennum athugasemdum hér að framan.
    Í greininni er jafnframt lagt til að í 2. mgr. 147. gr. verði ráðherra Hagstofu Íslands heimilað að setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag hlutafélagaskráningar, rekstur hlutafélagaskrár og aðgang að skránni. Hvað þetta snertir er hér ekki um efnisbreytingu að ræða frá gildandi ákvæðum, aðra en þá sem leiðir af tillögunni um að skráning hlutafélaga flytjist frá viðskiptaráðuneyti til Hagstofunnar. Hvað varðar aðgang að skránni þarf í þessu sambandi að hafa hliðsjón af reglum um slíkan aðgang skv. 3. gr., sbr. 2. gr., 1. félagaréttartilskipunarinnar sem er hluti EES-samningsins. Ákvæði laga um ársreikninga lúta einnig að veitingu opinberra upplýsinga um fyrirtæki. Tekið skal fram að í gildandi lögum er í 147. gr. veitt heimild til setningar reglna um skipulag hlutafélagaskrár en sú heimild hefur ekki verið nýtt.
    Auk framangreindra atriða er lagt til að heimilt verði í reglugerð að kveða á um gjaldtöku vegna útgáfu vottorða og afnota af hlutafélagaskrá. Gert er ráð fyrir að gjaldtakan miðist við að standa straum af hluta af rekstrarkostnaði hlutafélagaskrár. Rétt er að taka fram að ekki eru uppi fastmótuð áform um þessa gjaldtöku. Í þessu efni hefur einkum verið horft til þjóðskrár og fyrirtækjaskrár þar sem gjaldtaka fyrir útgáfu vottorða og hagnýtingu skránna hefur tíðkast um árabil. Sú gjaldtaka hefur þjónað tvennum tilgangi, að afla fjár til rekstrar og draga þar með úr þörf fyrir notkun skattfjár og stýra að hluta eftirspurn eftir þjónustu skránna. Undanfarin ár hafa þjóðskrá og fyrirtækjaskrá verið reknar að u.þ.b. tveimur þriðju hlutum fyrir eigin þjónustutekjur. Engu að síður er í tengslum við skrárnar rekin umfangsmikil, gjaldfrjáls upplýsingaþjónusta. Hvað hlutafélagaskrá varðar er ekki gert ráð fyrir að farið verði geyst í sakirnar með gjaldtöku heldur verði hún í upphafi fyrst og fremst miðuð við samræmingu við það sem tíðkast hjá Hagstofunni í þessu efni. Reikna verður með að töluverðan tíma muni taka að ná upp umtalsverðum eigin tekjum af hagnýtingu hlutafélagaskrár enda verði það háð tvennu fyrst og fremst, að tölvukerfi skrárinnar verði komið í nýtanlegt horf og að eftirspurn skapist eftir upplýsingum úr skránni.

Um 10. gr.


    Í 158. gr. gildandi laga er kveðið á um heimild ráðherra til að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Vegna tillagna frumvarps þessa um flutning hlutafélagaskrár til Hagstofu Íslands er hér með tilvísun til 2. mgr. 147. gr. gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra hafi heimild til setningar reglugerðar um öll efnisatriði hlutafélagalaga, önnur en þau er lúta að skráningu hlutafélaga.

Um 11. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september 1997 svo að ráðrúm gefist til þess að undirbúa flutning hlutafélagaskrár til Hagstofu Íslands og samræma skráningu í hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá og fyrirtækjaskrá.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að tilhögun opinberrar skráningar félaga og fyrirtækja verði endurskipulögð. Er frumvarp þetta flutt samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um einkahlutafélög og lögum um samvinnufélög.
    Verði frumvörp þessi að lögum er fyrirhugað að flytja starfsemi hlutafélagaskrár til Hagstofu Íslands þar sem komið verði á miðlægu skráningarkerfi fyrir öll hlutafélög og fyrirtæki í landinu. Fram til þessa hefur skráning þessi verið dreifð á fleiri aðila með tilheyrandi óskilvirkni.
    Við undirbúning að frumvörpunum var gerð kostnaðaráætlun til að bera saman kostnað fyrir og eftir sameiningu fyrirtækjaskrár hjá Hagstofunni. Kostnaður af þessari starfsemi nam 18,4 m.kr. á árinu 1996 meðan hlutafélagaskrá starfar enn sem sjálfstæður aðili og fyrirtækjaskrá er hjá Hagstofu. Skiptist sá kostnaður þannig að fyrirtækjaskrá er kostaði 6,4 m.kr. en hlutafélagaskrá 12,1 m.kr.
    Eftir sameiningu, sem áformað er að verði í haust, er talið að samanlagður kostnaður við fyrirtækjaskrá, að hlutafélagaskrá meðtaldri, nemi 15,3 m.kr. á fyrsta ári og lækki í 12 m.kr. á öðru ári. Er þá reiknað með að sértekjur fyrirtækjaskrár aukist nokkuð, eða úr 9 m.kr. 1996 í 9,7 m.kr. á fyrsta starfsári og 11 m.kr. á öðru ári. Sparnaður af rekstri mun þannig geta numið 3,1 m.kr. á fyrsta starfsári miðað við kostnað 1996 og 6,4 m.kr. á öðru ári. Þá er ekki reiknað með sparnaði sem skapast getur hjá sýslumannsembættum, skattstofum og embætti ríkisskattstjóra sem til þessa hafa haldið ýmsar skrár yfir félög með tilheyrandi tvíverknaði og ónákvæmni.
    Á móti kemur að Hagstofan mun þurfa að leggja í nokkurn hugbúnaðarkostnað til að sinna hinu nýja verkefni. Ætlun Hagstofu er að endurnýja hugbúnað Þjóðskrár og um leið hanna hugbúnað sem tekur við hinni sameinuðu fyrirtækjaskrá. Er talið að kostnaðarhluti fyrirtækjaskrár verði um 7 m.kr. Þar af mun Hagstofan leggja fram um 2 m.kr. af núverandi fjárveitingum en um 5 m.kr. verði útlagður kostnaður.
    Verði frumvarp þetta að lögum má ætla að það verði til verulegs hagræðis, bæði fyrir viðskiptalífið og ríkissjóð.